Allir í bátana

Grænafl vinnur að orkuskiptum minni fiskiskipa. Fyrst og fremst er hugað að rafvæðingu strandveiðiflotans, þar sem orkunýting þeirra býður upp á að þeir keyri á hreinu rafmagni. Heimahöfn er Siglufjörður, þar sem lífleg strandveiðimenning ríkir og innviðir og tækniþekking er til staðar.

Fiskveiðar hafa verið stundaðar frá Íslandi frá landnámi og byggðin ber þess merki. Þar sem var stutt í fengsæl fiskimið varð blómstrandi mannlíf. Smábátar voru undirstaða þorpsmyndunar við sjávarsíðuna og eru enn sálin í útgerðarsamfélögum nútímans. Árið 1902 urðu þáttaskil þegar vélvæðingin hófst. Fyrsti íslenski vélbáturinn, Stanley, lét úr höfn á Ísafirði og markaði þar með upphaf nýrrar aldar og ekki bara í sjávarútvegi. Vélvæðingin breiddist út, ruddi brautina fyrir aðra atvinnuvegi. Iðnbyltingin á Íslandi hófst þegar vél var sett í smábát.

Mikilvægi sjávarútvegs og fiskveiðar er enn gríðarlega mikið, þrátt fyrir umfangsmiklar samfélagsbreytingar, ekki síst í sjávarbyggðum um allt land. Og nú er það næsta bylting; það að hætta notkun jarðefnaeldsneytis við sjósókn.

Líkt og með vélvæðinguna, munu smábátarnir ryðja brautina þegar kemur að orkuskiptum í sjávarútvegi. Við stöndum á þröskuldi nýrrar aldar og loftslagsváin kallar á tafarlausar aðgerðir. Með því að rafvæða minni fiskiskip er hægt að fara strax í aðgerðir sem skila þegar í stað samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Grænafl stígur fyrstu skrefin í orkuskiptum í sjávarútvegi og þau skref geta, með réttum aðgerðum, orðið mörg og stór. Tíu árum eftir að Stanley lagði úr höfn í fyrsta vélknúna róðurinn voru vélbátar á Íslandi orðnir 414. Við þurfum slíka umbyltingu enn á ný.

Næstu skref

Grænafl einbeitir sér fyrsta kastið að rafvæðingu strandveiðibáta. Orkunotkun þeirra er þannig að hreint rafmagn hentar vel sem orkugjafi. Næstu skref verða rannsóknir og þróun á blöndu fleiri grænna orkugjafa, þar sem kannað verður hvaða lífrænu orkugjafar henta ásamt rafmagni til að keyra stærri báta.

Ísland hefur alla burði til að hætta allri notkun jarðefnaeldsneytis. Til þess þarf að stíga stór skref á mörgum sviðum. Það er ekkert eitt sem þarf að gera, það er allt. Orkuskipti minni fiskiskipa eru viðráðanlegt verkefni sem skilar strax árangri. Við getum sjálf stigið skrefin, en þurfum ekki að bíða eftir því sem gerist úti í heimi.

Grænafl ehf.

Aðalgötu 34
580 Siglufirði

Hafa samband

695 0860
graenafl@graenafl.is